Umsagnir um drög að Landgræðsluáætlun 2021-2031 og um drög að umhverfismati áætlunarinnar.

12.05.2021. Seltjarnarnes

Ekki er gerð athugasemd við landgræðsluáætlun 2021-2031

20.05.2021. Vesturbyggð

Góðan dag.

Umsagnarbeiðni þín var tekin fyrir á 84. fundi skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar sem haldinn var 14. maí, eftirfarandi var bókað á fundinum undir 4. fundarlið:

4. Landgræðsluáætlun 2021-2031 og umhverfismat áætlunarinnar – ósk um umsögn hagsaðila

Lagt fram til kynningar erindi frá Landgræðslunni, dags. 6. maí 2021. Í erindinu er óskað umsagnar um drög að landgræðsluáætlun 2021-2031 og um drög að umhverfismati áætlunarinnar.

Meginmarkmið landgræðsluáætlunar lúta að vernd og endurheimt vistkerfa, vernd kolefnisríks jarðvegs, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri samhliða því að efla líffræðilega fjölbreytni. Áætlunin setur fram sýn um hvað leggja skal til grundvallar fyrir landgræðslustarfið. Jafnframt er fjallað um hvernig má auka þanþol og viðnámsþrótt vistkerfa og nýta land á sjálfbæran hátt, í takt við vistgetu þess.

Skipulags- og umhverfisráð fagnar því að sett sé fram vönduð stefna á landsvísu um landgræðslu en vill þó árétta að skoða þurfi umsóknir um landgræðsluverkefni svæðisbundið þar sem aðstæður geta verið mismunandi og aðrir hagsmunir kunni að vera fyrir hendi sem þurfi ávallt að vega og meta hverju sinni.

Þetta tilkynnist hér með.

24.05.2021. Stefán Hrafn Magnússon

Punktur. 1.4 Er varðar ágengar tegundir. Lúpinan hefur sannað sig sem hin besta jurt við landgræðslu.

Og bindur nitur í jarðveg og undirbýr örfoka land og uppblásna mela undir td skógrækt.
Ég plantaði fyrstu lúpinum á land mitt fyrir 32 árum Nú er lúpinan að hörva og aðrar jurtir runnar og grös að taka við.

Stefnumörkun landgræðsluáætlunar er þessvegna ekki alveg á réttri leið.
Það er heldur ekki sjálfbært að það skuli þurfa tilbuin áburð með grasfræi a uppgræðslu örfoka lands.

Það er gott starf og góð áætlun, að safna birkifræi og sá i mela og örfoka land, en hafa ber i huga að nauðsynlegt er að skapa sambýli fjölbreittra teguna við landgræðslu, og sá ekki bara einni tegund heldur skal sá 5 eða fleyri tegundum sem henta í landgræðsluna.

25.05.2021. Jón Guðmundsson

Í FÚLUSTU alvöru!

Það er ýmislegt gott í landgræðsluáætluninni.

En þið eruð svo GJÖRSAMLEGA úti í móa í kaflanum markmið 1.4
Ef alaskalúpína er ágeng þá segir það meira um ástand landsins en lúpínuna.
Og hvaða vistkerfum hefur hún raskað? Eru það ekki vistkerfi sem átti að bæta og breyta hvort eð er?

Eru vistkerfin sem hún breytir í jafnvægi? NEI! Þau vistkerfi eru hrörnuð vistkerfi, oft lyngmóar sem hafa tekið við af gras og blómlendi eftir að svæðin hafa verið þrautpínd öldum saman af beit.

03.06.2021. Eyjafjarðasveit

„Umhverfisnefnd Eyjafjarðarsveitar fagnar drögum að landgræðsluáætlun og lýsir sig sammála henni í öllum meginatriðum. Hér á eftir fara nokkrir punktar nefndarinnar varðandi meginmarkmiðin:

Meginmarkmið 1. Vistkerfi heil og fjölbreytt, í samræmi við vistgetu
Almennt séð hefur dregið úr beitarnýtingu í Eyjafjarðarsveit vegna fækkunar sauðfjár, sérstaklega í sveitarfélaginu næst Akureyri. Víða má sjá mikla aukningu í gróðursæld vegna skógræktar en einnig aukna útbreiðslu víðis og birkis útfrá eldri skógræktarreitum, þar sem beitarálag hefur minnkað eða er alfriðað fyrir beit. Mörg svæði eru þannig að þróast í átt að sinni vistgetu. Endurheimt og styrking vistkerfa þarf að forgangsraða eftir líffræðilegu mikilvægi og gerast í samstarfi við sveitarfélög á hverju svæði fyrir sig.

Meginmarkmið 2. Landnýting sjálfbær og náttúrumiðaðar lausnir ríkjandi.
Nefndin tekur undir að stefna beri að sjálfbærri landnýtingu almennt en mikilvægt er að þekkingagrunnurinn sé styrktur. Mikilvægt er að beita jákvæðum hvötum í landbúnaðarkerfinu í átt að breytingum á landnýtingu þar sem það telst skynsamlegt til að t.d. endurheimta votlendi og styrkja gróðurþekju. Bændur hafa oftast góða aðstöðu og tæki til að vinna verkið sjálfir á sínum eigin jörðum.

Meginmarkmið 3. Almenn þekking og víðtækt samstarf um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.
Það mætti koma betur fram í skýrslunni að vantað hefur betri gögn um bindingu og losun kolefnis í íslenskum vistkerfum. Sérstakalega hefur verið mikill ágreiningur um losun frá framræstu votlendi og hefur umræðan skapað tortryggni milli bænda og þeirra sem hafa talað fyrir endurheimt votlendis. Þá er þekkingin á losun frá mismunandi þurrlendi enn skemmra á veg komin. Úr þessum þekkingaskorti þarf að bæta. Aðgerðir og fjármögnun verkefna þarf að byggja á viðurkenndri þekkingu á vistkerfunum, losun þeirra og bindingu og síðast en ekki síst vissu fyrir því hvaða árangri aðgerðir muni skila t.d. í minni losun kolefnis og/eða bættri vistþjónustu viðkomandi svæðis.“

 Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tók undir þessa bókun umhverfisnefndar á fundi 3. júní  2021.

04.06.2021. Jón Hákon Bjarnason

Landgræðslan er að endurheimta votlendi, með því að moka ofaní skurði á grónu land í lágsveitum. Hvernig væri ef að hún endurheimti frekar mólendi til fjalla og sveita, sem nú er orðið meira og minna uppblásnir melar?

Öll fjöll eru meira og minna uppblásin, en enn leynast samt gróððurleifar á hálendinu hér og þar. Talsvert er um melafláka á láglendi, nokkuð sem ætti ekki að sjást!

Ættu þessi svæði ekki að hafa forgang í friðun? Þetta eru svæði sem ættu að fara í gjörgæslu strax. !!!Það þætti undarlegt ef landspítalinn mundi leggja niður gjörgæsludeildina!
Sinntu aðeins þeim sem eru með “pínu meidd” á puttanum! Hinir bara bíða, verslast upp með tímanum og drepast. En þannig er komið fyrir landinu okkar það blæs upp og gróðurinn hverfur smátt og smátt!. Og þannig hefur það verið í tugi, jafnvel hundruð ára.

Eitthvað hefur dregið úr uppblæstri, en það orsakast að því að öll gróðurmold, er fokin á haf út, nú þegar. Ég er nú orðin það gamall að ég man eftir miklum moldarstrókum blása af Haukadalsheiði er ég var stráklingur. Það var mikið brúnleitt ryk í loftinu! En þetta gerist ekki lengur, einfaldlega vegna þess að öll moldin er blásin nú þegar, á haf út og eftir stendur illa gróinn steinmelur, einstaka börð standa þó eftir á víð og dreif.

Það hefur hins vegar aldrei verið auðveldara að græða upp landið en einmitt nú, með hlýnandi loftslagi! En það er er hrikalega stórt verkefni, en ef eitthvað á að ávinnast, þá verður að banna lausagöngu sauðkindarinnar! En þar sem sauðfé er beitt þarf að stýra allri beit með hólfum og takmarka fjölda fjár, eftir ástandi gróðurlendis í hverju hólfi fyrir sig!

Öðruvísi næst aldrei neinn árangur við uppgræðslu landsins okkar Íslands! Hættum að moka ofaný skurði og búa til mýrar! Einbeytum okkur í að græða upp mela á landinu og útbreyðslu birkiskóga!

09.06.2021. Minjastofnun Íslands

Landgræðsluáætlun er einnig ætlað að efla landlæsi Íslendinga, auka þekkingu okkar allra á hlutverkum og starfsemi vistkerfa og stuðla að víðtæku samstarfi um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Ekki er fjallað um afmörkuð svæði á landinu í áætluninni heldur almennt um vistkerfi, vernd þeirra, viðhald og endurheimt. Einstaka aðgerðir sem gripið er til í þessu sambandi geta haft áhrif á fornleifar. Má þar einkum nefna endurheimt náttúrulegs skóglendis t.d. birkiskóga.

Í áætluninni er ekki fjallað um menningarminjar. Í umhverfisskýrslu landgræðsluáætlunarinnar segir að menningararfleifð sé einn þeirra umhverfisþátta sem hafðir eru til hliðsjónar. Í verkferlinu hafi verið unnin greining á þeim þáttum og fjallað um þá sem gera má ráð fyrir að jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og bætt/sjálfbær landnýting geti haft áhrif á.

Í töflu á bls. 12 í umhverfisskýrslu er sýnt hvernig annars vegar umhverfisþættir og hins vegar umhverfisviðmið landgræðsluáætlunar – Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna (HM) og Áratugur endurheimtar (ÁE), falla saman. Í töflunni fellur menningararfleifð undir hugtakið útivist ásamt landslagi, veðurfari, jarðmyndunum og heilbrigði.

Umfjöllun um menningarminjar og áhrif landgræðsluáætlunar 2021-2031 á þær er lítil eða engin í áætluninni og umhverfisskýrslu áætlunarinnar. Eins og áður segir fjallar áætlunin ekki um aðgerðir á skilgreindum svæðum og því erfitt að segja til um áhrif áætlunarinnar á einstaka fornleifar. Það er þó ljóst að aðgerðir sem lagðar eru til í áætluninni kunna að hafa áhrif á menningarminjar.

Í umhverfisskýrslu segir að þegar landgræðsluáætlun hafi tekið gildi muni Landgræðslan, í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og aðra hagaðila, vinna svæðisáætlanir fyrir hvern landshluta á grunni landgræðsluáætlunar. Í svæðisáætlununum verða tilgreind landgræðslusvæði og önnur svæði sem leggja skal áherslu á í landgræðslu og hvernig best er unnið að þeim markmiðum sem fram koma í landgræðsluáætlun að teknu tilliti til skipulagsáætlana og náttúruverndar. Landgræðslan mun kynna drög að svæðisáætlunum opinberlega og óska eftir umsögnum við þær. Í kjölfarið mun stofnunin birta svæðisáætlanirnar. Svæðisáætlanirnar verða síðan endurskoðaðar, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Minjastofnun vekur athygli á mikilvægi þess að tekið verði tillit til menningarminja við vinnslu svæðisáætlana. Stofnunin býr yfir upplýsingum um þau svæði á Íslandi þar sem fornleifar hafa verið skráðar. Þetta er aðeins lítill hluti landsins og því kann að vera þörf á að ráðast í skráningu fornleifa við vinnslu einhverra svæðisáætlana.

Minjastofnun Íslands gerir ekki frekari athugasemdir við drög að landgræðsluáætlun 2021-2031 né við drög að umhverfismati áætlunarinnar.

Virðingarfyllst,
f.h. Minjastofnunar Íslands

13.06.2021. Gunnar Einarsson
14.06.2021. Sveinn Runólfsson og Andrés Arnalds

Umsögn um drög að landsáætlun í landgræðslu

Fagna ber gerð þessarar vönduðu landgræðsluáætlunar. Á vefsíðu Landgræðslunnar kemur fram að áætlunin miðast við árin 2021 til 2031. En í sjálfum texta landsáætlunar er ekki að sjá við hvaða tímabil er miðað.

Undirritaðir geta ekki látið hjá líða að gera alvarlega athugasemd við eitt atriði í kaflanum: Meginniðurstöður stöðumats landgræðsluáætlunar
Ástand vistkerfa á bls. 6.
Þar segir í upphafi 2. málgreinar: „Þrátt fyrir að töluvert (leturbreyting höfundar) hafi áunnist, vantar enn mikið upp á að ástand vistkerfa landsins sé í samræmi sem það sem umhverfisaðstæður bjóða o.s.frv.“
Hér er ekki gerð athugasemd við orðaskipan setningar, en undirritaður telur að gróft vanmat á því, sem áunnist hefur náðst á undanförnum liðlega eitt hundrað árum í ástandi vistkerfa, felist í notkun þessa lýsingarorðs. Þetta er í raun móðgun við það mikla og óeigingjarna starf sem þúsundir Íslendinga hafa lagt að mörkum við endurheimt landgæða við afar þröngar fjárhagslega aðstæður, vantrú og óblíð náttúruöfl síðan landgræðslustarfið hófst fyrir 112 árum.
Stórkostlegur árangur hefur náðst á þessum árum við stöðvun hraðfara jarðvegs- og gróðureyðingar sem herjaði víða um land og ógnaði búsetu. Tugir þúsunda hektara af sandöldum er eirðu engum gróðri voru græddir upp og rof stöðvað á stórum landsvæðum. Auk þess hefur ástand landsins batnað um nær allt land vegna samstarfs og þátttöku bænda og sveitarstjórna í beitarstjórnun og uppgræðslu.

Suðurland: Um miðja síðustu öld var ekki annað sýnna en sandfokið í Eldhrauni myndi kaffæra byggðina að norðanverðu og sandfok frá sjónum byggðina að sunnan. Þegar varnarbaráttan hófst var aðeins mjótt gróðurbelti eftir, annað land þessarar gróskumiklu byggðar var þá orðin sandi orpið. Eftir landgræðsluaðgerðir er sveitin að mestu algróin. Uppbygging kauptúns á Kirkjubæjarklaustri var gerð möguleg með sandgræðslu um 1950. Uppgræðsla á Mýrdalssandi tryggði farsæla umferð um vegsvæðið sem áður var lokað fyrir umferð 17-20 daga á ári, með tilheyrandi miklum skemmdum á faratækjum á öðrum tímum ársins. Það væri engin byggð í Vík í Mýrdal ef ekki hefði komið til þrotlaust sandgræðslustarf þar frá því um miðja síðustu öld. Ef ekki hefði komið til gríðarlega umfangsmikið sandgræðslustarf á Rangárvöllum og Landsveit frá fyrri hluta síðustu aldar er vandséð að þar væri einhver byggð í dag. Sömu sögu er að segja um syðri hluta Landeyja, elsta þorp landsins í Þykkvabæ hefði lagst af með öllu ef sandgræðslunnar hefði ekki notið við. Öllum sem til þekkja má vera ljóst að í Þorlákshöfn væri hvorki blómlegt kauptún né útgerð ef sandfokið á aðliggjandi svæðum hefði ekki verið stöðvað og landið grætt upp.
Elstu menn muna hvernig ástandið var á Suðurlandi á þurrviðristímum þegar moldrokið byrgði fólki sýn svo dögum skipti þegar uppblástur afréttanna var í algleymingi. Það þætti vart boðlegt í dag að hýbýli manna voru iðulega þakin moldryki innandyra og hvergi hægt að þurrka þvott svo dæmi sé tekið. Stöðvun uppblásturs á verstu svæðunum á hálendisbrúninni gerðist ekki af sjálfu sér og nú heyrir svona moldrok nánast sögunni til. Enn eitt dæmið er stöðvun eyðingar í land Gunnarsholts á Rangárvöllum og aðliggjandi jarða á 12.000 hektara af landi, en listinn um árangur á stórum landsvæðum við endurheimt vistkerfa er óralangur.

Norðausturland: Svipuð dæmi má greina frá á mörgum svæðum. Það væri lítil byggð í Mývatnsveit ef sandgræðslunnar hefði ekki notið við og sama er að segja um Öxarfjörð og Kelduhverfi. Ótal mörg önnur svæði væri hægt að nefna af þessum og öðrum landsvæðum, en verður ekki gert hér.
Ljóst má vera að miðað við hvað ástand á gróðri og jarðvegi og þar með vistkerfum landsins var skelfilegt í upphafi landgræðslustarfsins má ljóst vera að árangurinn sem náðst hefur í vistheimt er því verulega meiri en töluverður. En tekið skal fram að enn eigum við mikið eftir til að geta við unað.

Umhverfismat áætlunar
Umhverfisskýrsla landgræðsluáætlunar 2021-2031 er vel unnið plagg og einkar fróðlegt. Það er ánægjulegt að sjá þá vistkerfisnálgun sem þar er í fyrirrúmi og áherslu á sjálfbærni landnýtingar. Enn fremur það undirmarkmið að takmarka rask vistkerfa af völdum ágengra framandi tegunda.

Undirritaðir kjósa að veita ekki frekari umsögn um þetta annars ágæta plagg. En fróðlegt hefði verið sjá í textanum hvort að þessi landsáætlun væri númer sex eða sjö í röð landgræðsluáætlana.

Sveinn Runólfsson,
Andrés Arnalds.

14.06.2021. Samband Íslenskra sveitarfélaga
14.06.2021. Landvernd
14.06.2021. Náttúrufræðistofnun Íslands

Garðabær, 14, júní 2021.
Tilvísun í mál nr. 202105-0011 (SS, LA, JG, OKV, BK, SH).

Vísað er í tölvupóst frá Landgræðslunni, fyrir hönd verkefnastjórn landgræðsluáætlunar, þar sem óskað er eftir umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um drög að landgræðsluáætlun 2021-2031 og um drög að umhverfismati áætlunarinnar.
Náttúrufræðistofnun hefur lesið yfir drögin og vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.

Almennt um stefnu og inntak draga að landgræðsluáætlun

Í landgræðsluáætlun er lögð fram stefna og framtíðarsýn um landgræðslu með markmið laga um landgræðslu nr. 155/2018 að leiðarljósi. Höfuðáherslur eru heildstæð vistkerfavernd, endurheimt raskaðra vistkerfa og sjálfbær landnýting. Sértæk markmið eru skilgreind um verndun vistkerfa, verndun kolefnisríks jarðvegs og minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landi samhliða því sem efla á líffræðilega fjölbreytni og auka þanþol og viðnámsþrótt vistkerfa. Taka skal tillit til ólíkra eiginleika lands, sér í lagi vistgetu þess.

Náttúrufræðistofnun lýsir yfir almennri ánægju með framangreindar höfuðáherslur og að verndun og endurheimt vistkerfa sé stillt fram sem lykilviðfangsefni og markmiði samhliða kolefnisbindingu. Tekið er undir það sem kemur fram í kafla um árangursmat að hætta sé á að ofuráhersla á loftslagsmál geti verið á kostnað náttúruverndar og endurheimtar.

Einnig er mikilvægt og jákvætt að stefnt sé að því að taka tillit til sérstöðu ólíkra vistkerfa og vistgerða. Að mati Náttúrufræðistofnunar þarf einnig að taka tillit til sérstöðu tiltekinna svæða í þessu samhengi og mikilvægt að það sé viðurkennt að landgræðsla eigi ekki alls staðar við. Til að mynda eru mörg svæði einkum á hálendi en einnig á láglendi þar sem tilteknar jarðminjar og landslag hafa hátt verndargildi en eru jafnframt með litla gróðurþekju og einkennast af hægri náttúrulegri framvindu gróðurs. Þar má nefna jökulmenjar, sanda, áreyrar, hraun og gíga o.s.frv. Eins og fram kemur í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 þarf að „…tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum …“.

Sama á við um líffræðilega fjölbreytni, markmið um að efla líffræðilega fjölbreytni þarf að skilgreina á ólíkan hátt eftir aðstæðum og alltaf í takt við eðlilega náttúrulega ferla eins og þeir hafa þróast á Íslandi í árþúsundir eða lengur. Fábreytni getur verið upprunalegt og eðlilegt ástand vistkerfa í ýmsum tilfellum. Markmið um auðgun lífríkis eiga því einkum við um svæði þar sem rask má rekja til athafna manna fyrr og nú, t.d. þar sem jarðvegseyðing, röskun gróðurfars eða losun gróðurhúsalofttegunda á uppruna sinn að rekja til ósjálfbærrar landnýtingar. Náttúrulegir ferlar geta vitaskuld aukið slíka röskun og taka þarf tillit til þess í öllu mati. Ætíð skal horfa til markmiða í lögum um náttúruvernd þegar lagt er mat á hvort og hvernig landgræðsla á við og gæta þess að einstakar aðgerðir vinni ekki gegn þeim markmiðum.

Áætlanir um mat á vistgetu lands umfram mat á vistfræðilegri virkni þess og ástandi er mikilvægt innlegg í að greina á milli svæða þar sem þörf er á endurheimt og þeirra sem hafa lága vistfræðilega virkni frá náttúrunnar hendi og þar sem ekki er ástæða til að grípa inn í með aðgerðum. Mikilvægt er að tekið sé tillit til fjölþættra upplýsinga um vistfræðileg og jarðfræðileg sérkenni svæða við ákvarðanatöku og framkvæmd einstakra landgræðsluverkefna sem og mat á almennu verndargildi og verndarstöðu þeirra og að hugað sé að samhengi við áform og áætlanir í náttúruvernd.

Náttúrufræðistofnun bendir í þessu samhengi á ýmis gögn sem stofnunin hefur útbúið og gefið út varðandi verndargildi og verndarstöðu íslenskrar náttúru t.d. um flokkun og mat á verndargildi vistgerða á Íslandi (https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_54.pdf) og kortlagning útbreiðslu vistgerða (NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS (ni.is)), skilgreining og kortlagning mikilvægra fuglasvæða á Íslandi (Fjolrit_55.pdf (ni.is)), tillögur að neti verndarsvæða fyrir B-hluta náttúruminjaskrár (Náttúruminjaskrá | Náttúrufræðistofnun Íslands (ni.is), válistar fyrir æðplöntur, fugla og spendýr (Válistar og friðun | Náttúrufræðistofnun Íslands (ni.is)), kortlagning náttúrufyrirbæra sem falla undir ákvæði 61. greinar laga um náttúruvernd um sérstaka verndun (Sérstök vernd | Náttúrufræðistofnun Íslands (ni.is)), viðmið um vernd jarðminja (Vernd jarðminja | Náttúrufræðistofnun Íslands (ni.is) og fleira.

Fram kemur á nokkrum stöðum í drögunum (t.d. bls. 2 en einnig víðar) að landgræðsluáætlun tengist ýmsum stefnum og áætlunum stjórnvalda. Minnst er á náttúruverndaráætlun en Náttúrufræðistofnun bendir á að skv. núgildandi lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 hefur framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár tekið við hlutverki náttúruverndaráætlana. Fyrsta framkvæmdaáætlunin hefur ekki enn tekið gildi en mikilvægt er að greint sé frá henni í landgræðsluáætlun þar sem hún verður lykiláætlun í náttúruvernd á gildistíma fyrstu landgræðsluáætlunar. Náttúrufræðistofnun hefur lagt fram tillögur að svæðum fyrir framkvæmdaáætlun er varða m.a. verndun vistgerða og mikilvægra fuglasvæða. Mikilvægt er að horft sé til þessara tillagna við útfærslur á einstökum aðgerðum landgræðsluáætlunar.
Varðandi alþjóðlegar skuldbindingar vill Náttúrufræðistofnun minna á Bernarsamninginn um verndun villtra dýra, plantna og búsvæða í Evrópu sem Ísland er aðili að, til viðbótar við þá alþjóðasamninga sem nefndir eru í drögunum. Ýmis áform í landgræðslu þarf að rýna með tilliti til áhrifa á einstakar tegundir dýra og plantna sem og vistgerða, og þar þarf að huga sérstaklega að þeim sem falla undir Bernarsamninginn.

Umfjöllun um einstök markmið landgræðsluáætlunar

Í umfjöllun um markmið 1.1 eru tilgreind verkefni/aðgerðir í töflu á bls. 14, m.a. að kortleggja ástand vistkerfa í þurrlendi og votlendi landsins og flokka framræst votlendi eftir jarðvegsgerð og mikilvægi endurheimtra búsvæða. Varðandi hvoru tveggja vill Náttúrufræðistofnun benda á að taka þarf með í matið upplýsingar um lífríki svæðanna. Forgangsröðun og verndaráherslur á tilteknum svæðum þar sem stefnt er að endurheimt ber að skoða með tilliti til mikilvægis svæðanna fyrir ákveðnar tegundir eða vistgerðir og verndarstöðu þeirra.

Í umfjöllun um markmið 1.2 er varðar verndun og aukningu kolefnisforða er mikilvægt að stefnt sé að því að taka alltaf tillit til markmiða um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Hafa þarf í huga breytileika svæða hvað þetta varðar. Nefna má sem dæmi að algjör beitarfriðun og aukin sjálfgræðslu birki- og víðiplantna getur verið óæskileg á svæðum sem eru sérstaklega mikilvæg búsvæði fyrir ábyrgðarfuglategundir sem kjósa sér opið land. Hófsöm beit sem ekki veldur landrofi en getur hægt á framvindu t.d. víði- og birkikjarrs, getur gegnt hlutverki fyrir stofn- og búsvæðavernd slíkra fuglategunda.

Tekið er undir mikilvægi þess að efla endurheimt votlendis sem auk þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er grundvallaraðgerð við að styrkja verndun vistgerða með hátt verndargildi og búsvæði ýmissa fuglategunda sem og annars lífríkis.
Lagt er til að Landgræðslan byggi upp vöktunarkerfi með mælipunktum innan skilgreindra lykilvistgerða um allt land til að mæla og skrá bindingu kolefnis í jarðvegi. Náttúrufræðistofnun stundar vöktun ýmissa vistgerða og telur mikilvægt að hugað sé að samræmingu vistgerðavöktunar hjá stofnununum.
Að mati Náttúrufræðistofnunar þarf að fara varlega með aðgerðir er varða varnir gegn landbroti. Víða er um eðlilega þróun náttúrulegra ferla t.d. þar sem ár renna í bugðum og flóð hafa mótað búsvæði fugla og fleiri lífvera. Skilgreina þarf þörf fyrir slík verkefni í ljósi aðstæðna hverju sinni.

Markmið 1.4 fjallar um að takmarka rask vistkerfa af völdum ágengra framandi tegunda. Mjög jákvætt er að mati Náttúrufræðistofnunar að ekki sé stefnt að notkun framandi tegunda við aðgerðir til að endurheimta vistkerfi ef hætta er á að þær séu ágengar. Að mati Náttúrufræðistofnunar ætti ekki að nota framandi tegundir við endurheimt vistkerfa yfir höfuð. Í umfjöllun um markmið 1.4 er bent á það rask sem framandi ágengar tegundir hafa þegar valdið hérlendis og mikilvægi þess að gripið sé til aðgerða til að bæta úr því og koma í veg fyrir frekara rask. Tekið er undir að nauðsynlegt sé að fullgera lista yfir ágengar framandi plöntutegundir sem bannað sé að flytja inn og dreifa, sem og að meta mögulega ágengni framandi tegunda sem notaðar eru í ræktun. Náttúrufræðistofnun er sammála því að mikilvæg vísbending um mögulega ágengni framandi tegunda sé saga þeirra í öðrum löndum sem þær hafa verið fluttar til og ræktaðar eða þeim dreift.

Lagt er til í umfjöllun um æskilega framtíðarstöðu hvað markmið 1.4 varðar að skilgreina vistkerfi og svæði þar sem lögð er áhersla á að hindra landnám og útbreiðslu framandi ágengra tegunda. Náttúrufræðistofnun leggur til að einnig séu skilgreindar vistgerðir og tegundir lífvera sem stendur meiri ógn en öðrum af framandi ágengum tegundum og tekið tillit til verndargildis og -stöðu þeirra við ákvarðanatöku um aðgerðir.
Náttúrufræðistofnun hefur stundað rannsóknir og vaktað framandi ágengar tegundir, einkum alaskalúpínu en einnig fleiri tegundir þ.m.t. mögulega ágengar tegundir sem og lagt mat á áhrif af útbreiðslu þeirra á vistgerðir og tegundir. Í töflu á bls. 22 er skilgreint verkefni um að kortleggja svæði og vistkerfi þar sem ágengum framandi tegundum verður haldið frá, og er Náttúrufræðistofnun falin ábyrgð á því. Mikilvægt er að þetta verkefni sé skilgreint frekar í samráði við Náttúrufræðistofnun og fjármagn tryggt til að fylgja því eftir.

Meginmarkmið 2 fjallar um að nýting lands skuli vera sjálfbær, miðast af ástandi þess og vistgetu og stuðla að viðgangi og virkni vistkerfa. Meðal annars er fjallað um áhrif útivistar og ferðamennsku á land og mikilvægi þess að vakta ástand vistkerfa á þessum svæðum. Náttúrufræðistofnun ber lögum samkvæmt að vakta friðlýst svæði. Nýlega hefur verið sett af stað vöktunarverkefni þar sem áhrif ferðaþjónustu á friðlýst svæði, verndarsvæði og náttúru landsins eru metin og vöktuð, þ.m.t. áhrif á jarðveg, gróðurfar og fugla. Mikilvægt er að samræma þessa vöktun sem Náttúrufræðistofnun stýrir en ýmsir aðrir aðilar taka þátt í við þau áform sem tilgreind eru í landgræðsluáætluninni. Bæta ætti við umfjöllun um þetta vöktunarverkefni í drög landgræðsluáætlunar t.d. í töflu á bls. 25.
Undirmarkmið um að hnignun vistkerfa tengd landnýtingu skuli stöðva og að vernd og endurheimt vistkerfa eigi að festa betur í sessi í regluverki og hvatakerfi landbúnaðar og matvælaframleiðslu eru metnaðarfull og framsýn markmið. Náttúrufræðistofnun tekur undir þessa sýn og hvetur stjórnvöld til þess að skoða vandlega þær áherslur og aðgerðir sem lagðar eru til í markmiðum 2.2 og 2.3. Ljóst er að margir þurfa að taka þátt í því verkefni.

Meginmarkmið 3 fjallar um bætta þekkingu á vistkerfum landsins og mikilvægi þeirra og á sjálfbærri landnýtingu. Náttúrufræðistofnun bendir á að hún hefur lögum samkvæmt mikilvægt hlutverk og hefur mikið lagt til varðandi fræðslu til almennings um náttúru landsins, vistgerðir, tegundir, jarðminjar o.fl. sem og mikilvægi þess að vernda náttúruna og ganga um hana með nærgætni.

Náttúrufræðistofnun telur að aðferðafræði við gerð umhverfismats landgræðsluáætlunar sé nokkuð óhefðbundin. Með því að skilgreina viðmið út frá Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna og markmið tengd Áratugi endurheimtar í stað þess að leggja mat á áhrif einstakra markmiða og tillagna að aðgerðum á lykilumhverfisþætti eins og hefðbundið er í umhverfismati áætlana, verður áhrifamatið nokkuð ómarkvisst og endasleppt að mati Náttúrufræðistofnunar. Mælt er með að bæta við nákvæmara áhrifamati þar sem er umfjöllun um hvernig markmið og aðgerðir hafa áhrif á einstaka umhverfisþætti.

Samantekt, lokaorð

Markmið og tilgreindar aðgerðir í drögum að landgræðsluáætlun bera með sér skýra sýn og mikinn metnað. Ljóst er að tryggja þarf góðan stuðning og samvinnu við stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, fjármagn og mannauð til framtíðar til að ásettum markmiðum verði náð og öllum nauðsynlegum aðgerðum fylgt úr hlaði.
Fram kemur í drögunum (á bls. 8) að það sé álit verkefnastjórnar landgræðsluáætlunar að margt megi betur fara í stjórnsýslu og ákvarðanatöku þegar kemur að landnýtingu og að það t.d. skorti betra samstarf stofnana landbúnaðar- og umhverfismála og heildstæða stefnumótun sem tekur tillit til allra forsenda og þá sér í lagi vistkerfaverndar sem lykilforsendu. Náttúrufræðistofnun getur tekið undir þetta álit að mörgu leyti og telur að almennt megi alltaf gera betur við að tryggja að almenn markmið og áætlanir í náttúruvernd, bæði er varða vistkerfi, vistgerðir og tegundir en einnig jarðminjar, landslag og víðerni séu höfð til grundvallar þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku er varðar sjálfbæra landnýtingu og í raun alla landnotkun. Með landgræðsluáætlun er kjörið tækifæri til þessa.

Í ljósi þessa vill Náttúrufræðistofnun Íslands að lokum nefna að það er afar óheppilegt að ekki sé meiri samhljómur í sýn, stefnu og skilgreindum aðgerðum landgræðsluáætlunar og landsáætlun í skógrækt miðað við þau drög sem hafa verið lögð fram fyrir báðar áætlanir. Skýrt er um það kveðið í lögum um landgræðslu og lögum um skógrækt að þessar tvær áætlanir eigi að talast við og vera samræmdar. Grundvallarmunur er á skilningi og afstöðu til tiltekinna lykilmálefna. Þar vega þyngst áhersla á verndun og endurheimt vistkerfa sem fær meiri vigt í landgræðsluáætlun en landsáætlun um skógrækt ef undanskilin er verndun náttúrulegra birkiskóga, og svo umfjöllun um framandi ágengar tegundir. Landgræðsluáætlunin útilokar með öllu að notaðar séu framandi ágengar tegundir við landgræðslu. Það gerir landsáætlun í skógrækt einnig en þar er líka fullyrt að þær innfluttu tegundir sem notaðar séu í skógrækt séu ekki ágengar og ekki talin nein hætta á að nota þær hér á landi. Það er mat Náttúrufræðistofnunar að sterkar vísbendingar eru um að töluverð hætta sé á að þær geti orðið ágengar. Hér er ljóst að töluvert ósamræmi er í áherslum sem þarf að ávarpa þegar áætlanirnar tvær eru samþættar eins og kveðið er á um í lögum. Náttúrufræðistofnun er að öllu leyti fylgjandi áherslum landgræðsluáætlunar þegar kemur að málefnum framandi tegunda eins og áður hefur komið fram.

Náttúrufræðistofnun Íslands áskilur sér rétt á frekari athugasemdum á síðari stigum eins og við á.

Virðingarfyllst,
Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands
Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndar.

14.06.2021. Samtök náttúrustofa

Samtök náttúrustofa fagna því að metnaðarfull landgræðsluáætlun skuli vera komin í kynningu. Þar kemur fram skýr framtíðarsýn um það ástand lands sem Ísland þarf að stefna að á næstu árum og áratugum, m.a. til að sporna við loftslagsbreytingum, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og ýmsum afleiðingum ósjálfbærrar landnýtingar. Verkefnið er ærið og hefur ekki alltaf hlotið nægilegan stuðning stjórnvalda en nú þarf átak til að gera framtíðarsýnina að veruleika um stöðu vistkerfa í landinu. Sem betur fer virðast stjórnvöld og almenningur átta sig æ betur á því að vernd og endurheimt vistkerfa er ekki gæluverkefni, heldur forsenda þess að við getum þrifist og notið velsældar. Auk þess fer það ekki saman að Ísland státi sig af því á alþjóðavettvangi að vera leiðandi í umhverfisvænni orkuframleiðslu, á meðan löskuð vistkerfi landsins losa ógrynni af kolefni út í andrúmsloftið, sem kyndir undir loftslagsbreytingar. Þessi landgræðsluáætlun er því mikið gleðiefni. Eftirfarandi eru nokkrar vinsamlegar ábendingar og hugleiðingar.

Efla þarf rannsóknir til að undirbyggja ákvarðanatöku
Víða um land eru vistkerfi hrunin, að hruni komin eða hefur verið raskað verulega. Þar sem gróðureyðing hefur orðið tapast mikið kolefni út í andrúmsloftið og tegundafjölbreytni minnkar. Lítill ágreiningur er um að uppblásið og gróðurlaust land er ástand sem æskilegt er að breyta, en nauðsynlegt er að efla rannsóknir á bindingu og losun íslensks jarðvegs almennt til að slíkar breytingar verði unnar út frá bestu þekkingu hverju sinni. Þá hefur nokkuð verið deilt um endurheimt votlendis og þekkingargrunninn sem að baki henni stendur. Enginn vafi er á því að endurheimt votlendis, með áherslu á svæði sem ekki eru í nýtingu, felur í sér fjölþættan ávinning fyrir vistkerfaþjónustu, þar á meðal varðandi vatnsbúskap (geymsla og miðlun vatns), gróðurfar, smádýralíf og fuglalíf. Einnig eru yfirgnæfandi líkur á að við endurheimtina dragi verulega úr losun kolefnis frá landinu. Það sýna m.a. erlendar rannsóknir. Engu að síður þarf að efla rannsóknir á öllum þáttum endurheimtar votlendis við íslenskar aðstæður; ekki síst hvað varðar að setja mælistiku á áhrif endurheimtar á kolefnislosun og -bindingu við ólíkar aðstæður. Þetta er afar brýnt svo mæla megi árangur endurheimtar votlendis á magnbundinn hátt. Þær upplýsingar er svo hægt að nota í kolefnisbókhald landsins. Líklegt er að þekking af þessu tagi gæti farið langt með að útkljá ágreining sem enn er um árangur endurheimtarinnar. A.m.k. yrði ekki lengur hægt að bera fyrir sig skort á mælanlegum árangri endurheimtar.

Auka þarf fræðslu til almennings og stjórnvalda
Mikilvægt er að bæta landlæsi almennings og þekkingu hans á endurheimt vistkerfa og eðli ágengra lífvera.
Markmið 1.4. um að takmarka rask vistkerfa af völdum ágengra framandi tegunda tekur á mjög áríðandi og mikilvægu verkefni. Inn í áherslur þess markmiðs þyrfti að bæta stóraukinni fræðslu til almennings um framandi og ágengar tegundir og þær ógnir sem af þeim stafar. Takmörkun rasks af völdum ágengra tegunda er ekki líkleg til að verða árangursrík ef almenningur í landinu er ómeðvitaður um þá ógn sem af þeim stafar, er þ.a.l. kannski ósáttur við aðgerðir og vinnur í sumum tilfellum jafnvel á móti markmiðinu. Dæmi um slíkt er söfnun og dreifing lúpínufræs, jafnvel ofan 400 m, af fólki sem telur sig vera að gera náttúrunni gott, og frétt síðasta sumar um mótmæli Kópavogsbúa við eyðingu lúpínu, sem virðast hafa haft þau áhrif að aðgerðum var hætt, allavega tímabundið. Í áherslum markmiðs 1.4. kemur fram að stjórnvöld muni gera upplýsingar um áhrif ágengra framandi tegunda á íslensk vistkerfi aðgengilegar, en betra væri að stunda einnig virka fræðslu sem útrýmir útbreiddum misskilningi. Það er alveg hægt, sbr. misskilning varðandi loftslagsbreytingar sem var útbreiddur hér áður, en í dag virðast langflestir gera sér grein fyrir þeirri ógn sem af þeim stafar.

Jafnrétti
Í útskýringu á meginmarkmiði 1 kemur fram að gætt skuli að kynja- og jafnréttissjónarmiðum við ákvarðanatöku. Það er vel, en síðan er ekkert meira minnst á það í texta við markmið 1, þannig að spurningar vakna um hversu mikið býr þar að baki. Þessu markmiði þyrfti að fylgja betur eftir í áætluninni – og svo auðvitað í framkvæmd hennar.

Fjármagn er hreyfiafl
Mörg af markmiðum landgræðsluáætlunar treysta á að hvata- og styrkjakerfi verði byggt upp til að ná þeim. Mikilvægt er að fjármagn verði til staðar til framfylgdar þegar að framkvæmdum kemur, sbr. markmið 3.3., enda mun það skila sér margfalt til baka þegar vistkerfi landsins verða orðin betur í stakk búin til að bregðast við náttúruvá og standa undir ýmiss konar sjálfbærri landnýtingu. Vistheimt krefst oft talsverðs fjármagns og mikillar þolinmæði.

Landgræðsla er mikilvæg
Á undanförnum árum og áratugum hefur mikið og nauðsynlegt starf verið unnið á sviði landgræðslu. Hana þarf þó að stórefla, enda alltof stór hluti af jarðvegi og gróðurlendum landsins í óásættanlegu ástandi. Með þessari áætlun virðist meira lífi vera blásið í málaflokkinn, sem er gleðilegt. Markmið hennar eru skýr, hnitmiðuð og framkvæmanleg og áherslurnar gefa fólki, fyrirtækjum og sveitarfélögum verkfæri sem nýtast þeim við að vinna að sjálfbærni og endurheimt vistkerfa með auknum krafti. Að lokum er ástæða til að benda á að til þess að þessi vel unna og metnaðarfulla landgræðsluáætlun nái markmiðum sínum þarf umfram allt að ríkja þverfagleg og víðtæk sátt um þær framkvæmdir sem vonandi verður ráðist í á næstu árum. Markmið 3 er þ.a.l. kannski mikilvægasta markmiðið og gegnsæi og upplýsingaflæði á öllum stigum nauðsynlegt til árangurs. Það verður spennandi að fylgjast með framkvæmd áætlunarinnar á næstu árum.

Virðingarfyllst, f.h. Samtaka náttúrustofa,
Dr. Erpur Snær Hansen, formaður.

14.06.2021. Bændasamtök Íslands
14.06.2021. Ungir umhverfissinnar

Umsögn Ungra umhverfissinna við Landgræðsluáætlun 2021-2031

Ungir umhverfissinnar fagna því að ný Landgræðsluáætlun sé í bígerð til að samræma aðgerðir við nýjustu vísindi og aukna nauðsyn fyrir verndun og uppgræðslu landsins. Almennt eru þessi drög góð en það þarf þó frekari skýringar á nokkrum atriðum og öðru þarf að breyta til að samræmast markmiði áætlunarinnar.

Loftslagsmál í landgræðslu

Ungir umhverfissinnar taka undir það það ofuráhersla á loftslagsmál í tengslum við landgræðslu sé hættuleg (bls. 7); samdráttur í losun á, að okkar mati, að vera aukaávinningur af því að endurheimta vistkerfi. Við tökum einnig undir að tengingar, þar sem þær eru til, innan stjórnsýslunnar milli málaflokka séu mjög veikar (bls. 8). Hér er mikil vinna framundan. Brjóta þarf niður sílóin sem eru til staðar og stórauka samvinnu milli ráðuneyta og stofnana til að hægt sé að vinna að landgræðslu, loftslagsmálum og öðrum tengdum málum heildstætt. Eins og er, eru ekki neinar aðgerðir í áætluninni sem hafa það markmið að bæta stjórnsýslunna í tengslum við þessi mál, en æskilegt væri að hafa slíkt eða slík markmið.
Ungir umhverfissinnar vilja að orðalagi á blaðsíðu 16 varðandi breytingaar á landnýtingaflokkum verði breytt. Á bls. 16 stendur þetta:
,,Mestur ávinningur fyrir kolefnisbókhald Íslands tengt landnýtingu, felst til að mynda í að breyta landnýtingu og færa þannig land úr LULUCF flokknum „Grassland – Other land“ (land í nýtingu) yfir í flokkinn „Other land“ (friðað land) því sá landflokkur stendur utan bókhaldsins.’’

Ungir umhverfissinnar vilja að ofanverð setning um að mestur ávinningur fyrir kolefnisbókhald Íslands felist í því að færa landsvæði í ákveðnum flokkum milli landnýtingaflokka verði fjarlægð. Þetta gefur til kynna að mestur ávinningur felist í því að sleppa losun sem á sér stað úr heildarlosunartölum í losunarbókhaldi Íslands. Loftslagsmál eru ekki eitthvað sem hægt er að takast á við með því að beygja bókhaldsreglur því losunin á sér stað hvort sem við teljum hana með eða ekki. Vissulega getur friðun lands haft góð áhrif í því að endurheimta vistkerfi og draga þannig úr losun, en það á ekki að friða í þágu þess að minnka bókhaldslega losun, heldur á að draga raunverulega úr losun sem á sér stað. Þar að auki er óskýrt hvers konar friðun er hér átt við. Ef við höfum misskilið merkingu þessarar setningar í áætluninni þá þarf að skýra hana til að koma í veg fyrir slíkan misskilning
Á blaðsíðu 17 stendur að markmið um endurheimt votlendis sé að 10% af röskuðu votlendi verði endurheimt árið 2030. Við viljum sjá metnaðarfyllri markmið bæði fyrir 2025 og 2030 þar sem að einungis 14% framræsts lands er í notkun [1] og er að okkar mati ekkert í fyrirstöðu til að endurheimta meira en 10% 2030. Þetta þarf að sjálfsögðu að vera gert í samráði og samvinnu við landeigendur, og í þeim megintilgangi að endurheimta vistkerfi og að samdráttur í losun verði mikilvægur viðbótarávinningur. Einnig er mikilvægt að auka eftirlit með framræslu óraskaðs votlendis og ætti hún að vera bönnuð nema í sérstökum tilvikum.

Árangursmatskerfi

Við styðjum að koma skuli upp árangursmatskerfi, sem býður á upp á þann kost að meta árangur aðgerða svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana ef árangur er ekki sem skyldi, en þetta þarf að eiga sér stað sem fyrst. Hægt er að líta til reynslu annarra þjóða í þessum efnum en skilgreina þarf þau skref sem þarf að taka svo að kerfið verði að veruleika, hvort sem það er hannað frá grunni eða dregið annars staðar frá. Æskilegt er að árangursmatskerfið sé tilbúið til notkunar áður en fyrstu aðgerðum lýkur. Enn fremur þarf að forgangsraða aðgerðum á hnitmiðaðan hátt í samráði á milli hagsmunaaðila, en á þá vegu má leiða líkur að því að þær sitji síður á hakanum of lengi.

Ágengar tegundir

Ekki er tekið skýrt fram hvaða tegundir teljast ágengar eða hvaða svæði ætti að endurheimta. Skynsamlegt væri að setja upp lista yfir forgangsröðun verkefna þar sem þau svæði þar sem brýnast er að fjarlægja ágengar tegundir eru sett efst á listann.

Við fögnum því að Landgræðslan noti ekki ágengar tegundir til uppgræðslu. Að því sögðu viljum við hvetja til þess að listinn yfir ágengar tegundir sé í stöðugri þróun þar sem tekið er tillit til erlendra rannsókna um ágengar tegundir enda er líklegt að þær verði einnig ágengar hér á landi. Viljum við jafnframt hvetja til þess að endurheimt þar sem notaðar eru aðrar aðferðir en sáning plantna, líkt og myndun lífskánar, sé nýtt þar sem það er mögulegt.

Kortlagning ferðamannastaða og vöktun vistkerfa til að stöðva hnignun vegna álags frá ferðamennsku

Hvað varðar kortlagningu ferðamannstaða, sem Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur að nú í sumar, og vöktun þeirra út frá ástandi og þolmörkum vistkerfa, geta núverandi auðlindir, ef svo má segja; landverðir og jafnvægisás ferðamála komið að góðum notum til framtíðar. Landverðir þekkja vel til náttúru (jarðfræðilegar minja, gróðurs, dýra og vatns) starfssvæðis síns og hafa sankað að sér þekkingu um umhverfið, eins og breytingum sem hafa átt sér stað innan þess, yfir ákveðið tímabil. Því getur verið hagkvæmni í að nýta þekkingu landvarða til markvissrar vöktunar vistkerfa sem er eilífðarverkefni og þörf er á eins og þessi áætlun gefur til kynna, Mikilvægt er að sjá til þess að dýrmæt þekking landvarða tapist síður, sem efling starfsstéttarinnar og aðlagaðar áherslur á störfum þeirra myndi mögulega stuðla að. Hér er þörf á samráði á milli hagsmunaaðila. Jafnvægisás ferðamála þarf að efla frekar, bæði í þessum ofangreinda tilgangi sérstaklega og til að meta þol svæða með tilliti til samfélags, efnahags og umhverfis til að stöðva hnignun tengda ferðamennsku. Ætlunin með ásinum er einmitt að meta áhrif ferðamennsku á þessa þrjá þætti hvarvetna um landið. Efling ásarins myndi veita betri yfirsýn yfir stöðuna, t.a.m. stöðu umhverfis og þ.a.l. vistkerfa og eykur því líkurnar á því að brugðist verður fyrr við þegar talin er þörf á, t.d. út frá upplýsingum landvarða.

Hnignun vistkerfa tengt landnýtingu

Ungir umhverfissinnar taka undir þá stefnu að endurheimta sem mest af framræstu votlendi og þá áherslu á að reyna að auka hvata til endurheimtar votlendis. Í dag er stór hluti framræstra svæða ekki í nýtingu [2] og er nauðsynlegt að endurheimta þetta landsvæði. Það væri þó æskilegt að setja endurheimt ónýttra svæða í forgang fremur en að hvetja bændur til að færa túnrækt sem nú þegar er á framræstu votlendi yfir á önnur lítið röskuð landsvæði.
Hagrænir hvatar

Það er gott að sjá að það eigi að koma upp hvötum til fyrirtækja og einstaklinga sem fjárfesta í endurheimt vistkerfa. En það er frekar óskýrt hvað nákvæmlega er átt við með hagrænum hvötum á bls. 37 og hvernig þeir munu bera árangur.

Almennar athugasemdir

Ungir umhverfissinnar vilja að meiri áhersla verði lögð á að byggja upp samstarf við sveitarstjórnir, landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Án þeirra verður mjög erfitt eða jafnvel ómögulegt að vernda og endurheimta vistkerfi þar sem að stór hluti lands er í einkaeigu (bls. 18). Einnig þarf að auka upplýsingaflæði frá landgræðslu til landeigenda (þvert á stofnanir) til að upplýsingar um endurheimt votlendis og annar vistkerfa á að vera aðgengilegt
Eins og er eru flest markmið sett fyrir árin 2025 og 2030. Þetta er gott og er það mikilvægt að hafa slík markmið til styttri tíma, en einnig er mikilvægt að hafa markmið sem líta lengra inn í framtíðina sem hægt er að byggja skammtímamarkmiðin á. Til dæmis mætti setja gróf og víðtæk markmið fyrir árin 2050, 2075, og 2100. Einnig væri æskilegt að einhvers konar aðgerðaráætlanir fyrir þessi fjölmörgu markmið væru gerðar, eða gerðar aðgengilegar ef þær eru til nú þegar.
Tekið er fram að sjálfsáning birkis og víðitegunda verði 1500 km2. Óljóst er hvað átt er við með þessari stærð þar sem þetta gæti átt við eitt og eitt tré á stangli eða þéttan skóg en þar liggur mikill munur. Ekki er ljóst hvort þessi tala sé í samræmi við landsáætlun í skógrækt og er nauðsynlegt að skoða samræmi milli þessara tveggja áætlana frekar.

Okkur finnst jákvætt að endurskoða eigi lög varðandi búfjárhald með það markmið að bæta aðstæður til gróður- og jarðvegsverndar (bls. 18). Í þessum málaflokki viljum við benda á nýlega skýrslu Landverndar (sjá skýrslu hér) sem leggur til hvernig hægt sé að breyta lögum til að ná þessu markmiði.

Einnig finnst okkur mikilvægt að áætlunin taki á því vaxandi vandamáli sem gróðureldar eru hér á landi, sérstaklega í ljósi margra tilfella undanfarið.

Að lokum

Ungir umhverfissinnar vilja að ráðist verði í aðgerðir sem fyrst; mikilvægt er að bíða ekki lengur þar sem vistkerfi eru nú þegar í slæmu ástandi um allt land og losun frá röskuðum vistkerfum er almennt mikil.

Fyrir hönd Ungra umhverfissinna

Finnur Ricart Andrason, Loftslagsfulltrúi

14.06.2021. Aðalsteinn Sigurgeirsson

Umsögn um drög að Landgræðsluáætlun 2021-2031

Undirritaður er samþykkur ýmsu því sem lesa má í drögum að landgræðsluáætlun 2021-2031 (hér eftir: „drögin“), öðru síður og mörgu öðru alls ekki. Undirritaður hefur komið að landgræðslu- og skógræktarmálum í nokkra áratugi, jafnt í starfi, frístundum og félagsstarfi. Meðal annars hef ég verið í stjórnum skógræktarfélaga á landinu frá s.l. aldamótum. Skógræktarfélögin á landinu er frjáls félagasamtök – ekki aðeins í skógrækt – heldur einnig í landgræðslu. Skógræktarhreyfingin er sú hreyfing almennings sem helst sinnir landgræðslu í landinu. Innan vébanda regnhlífasamtaka skógræktarfélaga – Skógræktarfélags Íslands – eru yfir sjö þúsund manns með beina félagsaðild – sem gera þau að fjölmennustu, frjálsu félagsamtökum á sviði umhverfismála í landinu. Þau eru því sá aðili sem hefði umfram marga aðra átt að fá hlutverk í vinnu þeirri sem fram fór við gerð þeirra draga sem hér hafa verið kynnt – sem fulltrúi frjálsra félagasamtaka í almenningsþágu. Hefði slíkt verið gert, hefði það verið í fullu samræmi við markmið Árósarsamningsins um aðkomu frjálsra félagasamtaka að stjórnvaldsákvörðunum og áætlunum.

Þar sem áformað er, að Landgræðsluáætlun 2021-2030 og Landsáætlun í skógrækt 2021-2030 verði samræmdar af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins áður en þær taka formlega gildi sem stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt fyrir komandi áratug, er mikilvægt að þær séu „samræmanlegar“. Þau drög sem hér liggja fyrir verður seint hægt að samræma með starfsemi á sviði skógræktar í landinu, fái þau að standa óbreytt frá því sem nú liggur fyrir. Legg ég því til að hagaðilar í skógrækt – ekki síst fyrrnefnd félagasamtök – fái tíma og tækifæri til þess að hafa áhrif á texta Landgræðsluáætlunar í endanlegri gerð þeirra og áður en kemur að samræmingu við Landsáætlun í skógrækt.

Í drögunum er margt sem færa þyrfti til mun betri vegar, sé það ætlunin þess að hún kveði á um raunhæfa, skiljanlega og réttláta framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslumálum á komandi áratug.

Meðal annars er sá alvarlegi ágalli er á drögunum, að í texta þeirra er að finna mikið orðagjálfur og ýmsar þversagnir sem fara þyrfti í gegnum vandaðan prófarkalestur með það að markmiði að úr verði styttri texti – á skýru og skiljanlegu mannamáli. Með því aukast líkurnar á að almenningur, stjórnvöld og hagsmunaaðilar (þ.e., þeir sem fylgja eiga eftir stefnunni) skilji rökin fyrir því að tileinka sér stefnuna sem til stendur að framfylgja. Þar koma fyrir mörg nýstárleg, hátimbruð hugtök sem vart hafa fyrr sést í rituðu máli og eru lítt skiljanlegar öðrum en innvígðum og innmúruðum höfundum þessa texta.

Miklar málalengingar og hvimleiðar endurtekningar einkenna textann og er staglast mjög á einstökum hugtökum, án þess að þau séu nokkurs staðar skýrð eða skilgreind fyrir lesandanum. Nauðsynlegt er að bæta við lista með orðskýringum. Lesandinn fær það sterklega á tilfinninguna, að það sé allt að því kappsmál höfundanna að sjá til þess að mörg hugtökin, þ.m.t. grundvallarhugtök, séu óljós og margræð. Sjálft hugtakið „landgræðsla“ er t.a.m. hvergi skilgreint í drögunum, en ef flett er upp í íslensku orðabókinni má lesa eftirfarandi, skýringu sem ætti að vera flestum auðskilin: „það að græða upp lítt gróið eða ógróið land, t.d. sandfláka eða uppblásturssvæði til að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs eða jarðvegs; gróðurvernd“. Stundum er merking hugtaka skýrð í hálfgerðu framhjáhlaupi, en að líkindum er hinn venjulegi lesandi þrátt fyrir þær skýringar litlu nær um merkinguna. Dæmi: „Endurheimt vistkerfa byggir á því að skilja vistfræðilega ferla framvindu og nota skilvirk inngrip til að hafa áhrif á þá“ (bls. 7, 4. mgr.).

Víða í textanum er örðugt að greina á milli staðhæfinga sem byggjast á gagnreyndum niðurstöðum vísinda og þeirra sem byggjast aðeins á hugmyndafræðilegum kreddum hlutaðeigandi höfunda – eða bara „af-því-bara rökum“. Er það verulegur ágalli á drögunum, hve tilvísanir í heimildir er áfátt. Enn fremur úir og grúir þar af „loðinyrðum“ (e. weasel words); tvíræðnum eða loðnum orðum sem virðast helst gagnast til þess að blekkja eða afvegaleiða lesandann. Hér er ekki rúm til þess að fara í gegnum öll þau fjöldamörgu dæmi sem finna má í texta draganna og sem hafa á sér þennan brag. Verður látið nægja að staðnæmast við kaflann „Markmið 1.4: Takmarka rask vistkerfa af völdum ágengra framandi tegunda“. Þar segir í 1. mgr.: „Notkun framandi tegunda sem geta orðið ágengar er ekki samrýmanleg aðgerðum til að endurheimta vistkerfi. Ekki skal nota slíkar tegundir við uppgræðslu né önnur inngrip og bregðast skal við afleiðingum ágengra framandi tegunda með því að endurheimt vistkerfa sem hefur verið raskað vegna slíkra tegunda“. Vera má, að þetta sé bjargföst skoðun höfunda textans, en sú skoðun þarfnast nánari skýringa og röksemdafærslna, svo lesandinn átti síg á því hvort aðeins sé verið að viðra skoðun tiltekins hóps fólks eða verið að vísa til vísindalegrar niðurstöðu, lagaumhverfis, alþjóðalaga eða alþjóðlegra samninga. Þar sem hvergi er að finna slík ákvæði í íslenskum lögum né alþjóðalögum, hlýtur skýringin að vera sú fyrrnefnda: að þetta sé aðeins skoðun þeirra sem þetta rita, og eigi sér enga aðra stoð. Í framhaldi er að finna óskalisti höfundanna („Æskileg frammistaða“) um hvað framtíðin skuli bera í skauti sér fyrir örlög framandi tegunda sem nýttar hafa verið í landgræðslu með afar góðum árangri undanfarna áratugi, af hálfu Landgræðslu ríkisins (síðar Landgræðslunnar) – alaskalúpínu, beringspuntur – og af skógræktaraðilum (fjölda innfluttra trjátegunda). Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands þekur alaskalúpínan um þessar mundir um 300 km2 lands og megnið af þessum svæðum eru fyrrum örfoka svæði sem Landgræðslan sjálf hefur grætt upp með raðsáningum á lúpínufræi. Ef ætlunin er nú að „endurheimta“ þessi fyrrum örfoka svæði sem „raskað“ hefur verið með alaskalúpínu, hvernig er ætlunin að standa að þeirri eyðingu (endurheimt)? Með úðun eiturefna? Auk þess er ekki hægt að skilja orðalagið í þessum kafla öðru vísi, en að í sama „óskalista“ eigi að kalla eftir nýrri löggjöf, meira eftirliti og aðgerðaáætlunum um upprætingu þeirra innfluttu trjátegunda sem skógræktendur nota í miklum mæli og hafa notað marga undanfarna áratugi. Í töflu sem sýnd er í þessum kafla sem m.a. sýnir hvar ábyrgðin á þessum útilokunar – og upprætingaraðgerðum, vekur athygli hve lítið minnst á samráð við hagaðila í málinu, aðra en ráðuneytið (UAR) og Náttúrufræðistofnun Íslands. Mega skógræktendur landsins reikna með því að senn hefjist þjóðernishreinanir í ræktuðum skógum Íslands (um 500 km2), að undirlagi Landgræðslunnar?

Skylt efni kafla 1.4 (bls 21-22): Í nýlegri umsögn Landgræðslunnar vegna skógræktaráætlunar í upplöndum Kópavogs var varað við því að nota stafafuru (Pinus contorta) við landgræðsluskógrækt, með þeim rökum að tegundinni hafi verið lýst sem „einni ágengustu tegund jarðar og flokkuð sem ágeng í mörgum löndum“. Þessi staðhæfing virðist okkur fullkomlega úr lausu lofti gripin (enda engra heimilda getið í umsögninni). Það er lítilmannlegt og Landgræðslunni til skammar að breiða út mengaðar upplýsingar um þessa og aðrar innfluttar trjátegundir og að dreifa slíkum falsfréttum til einstakra sveitarfélaga. Skilgreining manna á því hvað felst í „ágengni“ einstakra tegunda virðist mjög á reiki. Sumir hér innanlands (þar á meðal – að því er virðist – Landgræðslan) virðast standa í þeirri bjargföstu trú, að „ágeng tegund“ sé hver sú innflutta tegund sem staðin hafi verið að því að fjölga sér utan náttúrlega heimkynna. Í lögum um náttúruvernd (60/2013) er „ágeng framandi lífvera“ hins vegar skilgreind með eftirfarandi hætti: „Framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni“. Stafafura getur vissulega sáð sér út í raskað, beitarfriðað land í næsta nágrenni við mæður sínar. En hún veldur ekki – né er hún líkleg til að valda – rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni (Líffræðileg fjölbreytni: Breytileiki meðal lifandi vera á öllum skipulagsstigum lífs, þar á meðal í vistkerfum á landi, í sjó og í ferskvatni. Hugtakið tekur til vistfræðilegra tengsla milli vistkerfa og nær til fjölbreytni innan tegunda og milli tegunda og vistkerfa. – skv. lögum um náttúruvernd (60/2013)). Engar vísbendingar hér innanlands né frá öðrum löndum liggja fyrir um að stafafura né nokkur önnur furutegund valdi rýrnun á eða ógni líffræðilegri fjölbreytni. Þvert á móti benda nýlegar rannsóknir hér innanlands til þess að innlendar tegundir eflist margar við að vaxa í skjóli og með bættu næringarframboði með hjálp stafafurunnar.

Fyrrnefnda skilgreiningin í íslenskum lögum er í fullu samræmi við þá sem er að finna hjá Sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni (CBD; https://www.cbd.int/). Þar er „ágeng, framandi lífvera“ skilgreind með eftirfarandi hætti: „Invasive alien species (IAS): Species whose introduction and/or spread outside their natural past or present distribution threatens biological diversity.“ Gerður er skýr greinarmunur af hálfu samningsins (og líka í íslenskum lögum) á „ágengri framandi tegund“ og „framandi tegund“. Skilgreining CBD á síðarnefnda hópi lífvera er sem hér segir: „Non-native species: A species, subspecies or lower taxon, introduced outside its natural past or present distribution. Landgræðslan gengur í fyrrnefndri umsögn skrefinu lengra en aðeins að telja allar „framandi“ tegundir um leið „ágengar“ (eða „mögulega ágengar“). Hún varar meira að segja við að rækta birki úr öðrum landshluta (Bæjarstaðarskógi í Austur-Skaftafellssýslu) í upplöndum Kópavogs, væntanlega með þeim rökum að erfðaefni birkis úr öðrum sýslum sé „mögulega ágengt“.

Með fullri virðingu fyrir Landgræðslunni og áliti starfsmanna hennar, standa lög og ákvæði í Samningnum um líffræðilega fjölbreytni ofar áliti eða kreddum einstakra starfsmanni einstakra ríkisstofnana. Og ríkisstofnanir mega ekki ganga lengra í túlkunum en lögin heimila.

Í „Umhverfisskýrslu landgræðsluáætlunar 2021-2031“ reyna höfundar draganna að greina texta draganna með hliðsjón af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (https://www.heimsmarkmidin.is/) . Þar fara höfundarnir glannalega í oftúlkunum á því sem þeir túlka sem efnislegan samhljóm milli eigin texta og markmiða S.þ. Nefna má heimsmarkmið nr. 15 (Líf á landi) sem helst á erindi í umræðu um heimsmarkmiðin þegar fjallað er um framfylgd markmiðanna gagnvart landgræðslu og skógrækt á Íslandi og annars staðar í heiminum. Þar eru aðildarlönd S.þ. hvött til þess að stöðva hnignun gróðurs, jarðvegs og vistkerfa m.a. með því að rækta meiri skóg. Þar stendur sem yfirmarkmið nr. 15: „Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbærri stjórnun skógarauðlindarinnar, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu og endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.“ Í undirmarkmiði 15.2 stendur: „Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbærni skóga af öllu tagi, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurrækta skóga um allan heim.“ Það er fráleit oftúlkun höfunda draganna, að gera heimsmarkmiðunum upp þann ásetning, að vilja berjast gegn því að gagnlegar, útlendar tegundir svo sem alaskalúpína eða stafafura geti numið land á Íslandi og stöðvað með því uppblástur og jarðvegsrof (bls. 16: „Áherslur á … aðgerðir sem ætlað er að hindra frekara landnám og útbreiðslu framandi, ágengra tegunda í íslenskri náttúru styðja við markmiðið“). Í fyrsta lagi eru fyrrnefndar tegundir nytjaplöntur sem bæta jarðveginn og skila margþættum ávinningi fyrir lífríki og samfélag manna. Þær efla m.a. þanþol vistkerfa og vistfræðilega virkni – þó þær séu innfluttar – og leika með því mikilvægt hlutverk í að ná fram heimsmarkmiði nr. 15. Í öðru lagi eru þessar tegundir ekki ágengar (þó öðru sé haldið fram berum orðum í texta draganna um alaskalúpínu og ýjað að því í umfjöllun um innfluttar trjátegundir).

Hér eru aðeins bent á fáein dæmi af mörgum sem finna má að í texta draga að Landgræðsluáætlun 2021-2031, þar sem réttmætt og skynsamlegt hefði verið af hálfu Landgræðslunnar að eiga samráð við hlutaðeigandi hagaðila (Skógræktina, Skógræktarfélag Íslands, Landssamtök skógareigenda, Bændasamtök Íslands), áður en drögin voru kynnt í þessum búningi. Ef ætlunin er að „samræma“ áætlanirnar tvær (um skógrækt og landgræðslu), mun aldrei nást nein samræming á grundvelli þeirra draga sem hér hafa verið kynntar og munu því daga uppi í skúffum. Þessi drög ber því – að mínu mati – að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Aðalsteinn Sigurgeirsson
B.Sc. (Hon.) í skógfræði
Skoglig Dr. (PhD) í skógerfðafræði
Varaformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands, m.fl.

14.06.2021. Skútustaðahreppur

Vísað er í tölvupóst frá Landgræðslunni, fyrir hönd verkefnastjórn landgræðsluáætlunar, þar sem óskað er eftir umsögn Skútustaðahrepps um drög að landgræðsluáætlun 2021-2031 og um drög að umhverfismati áætlunarinnar.
Umhverfisfulltrúi Skútustaðahrepps vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

1. Það er margt gott sem þarna kemur fram í Landgræðsluáætlun 2021-2031 en of mikil áhersla er á rannsóknir, eftirlit, kortagerð en allt of lítið komið inn á verklegar framkvæmir, fjármögnun og fleira. Vissulega er gott að fylgjast með því sem er gert og á að gera en í kafla 3.2. stendur ,,Þátttaka einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja í endurheimtarverkefnum er líka lykilatriði til að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem stefnt er að, svo sem innan Parísarsamkomulagsins og markmiðum Íslands um kolefnishlutleysi 2040. Því þarf að skapa aðstæður sem hvetja alla geira samfélagsins til þátttöku. “
Það þarf að fara að líta á þetta sem atvinnu og borga fólk til að vinna. Bændur geta t.d. ekki bætt meiru við sig í verkefninu ,,Bændur græða landið”. Það er nóg land til í eigu ríkisins og sveitarfélaganna til að byrja að vinna á, bæði endurheimt birkiskóga, uppgræðsla og endurheimt votlendis. Stóru fyrirtækin geta ekki óskað eftir ódýru vinnuafli til að kolefnisjafna sig. Hlutirnir kosta bara og því fyrr sem fólk áttar sig á því, því betra.

2. í Kafla 1.4 er talað um ágengar tegundir. Skútustaðahreppur er að berjast við ágengar tegundir og þar á meðal lúpínu sem er farin að ógna jarðmyndunum. Vissulega er lúpína góð uppgræðsluplanta en að hætta að nota hana alveg og tala svo um að minnka kolefnisspor fer ekki alveg saman í samanburði við tilbúinn áburð. Kostnaður við uppgræddann hektara með lúpínu er miklu minni en með áburði og fræi. Skilyrði á notkun lúpínu var í góðum málum og synd að taka notkun á henni alveg út. Nýta lúpínusvæðin meira til beitar og má þá nefna t.d. sandana í Öxarfirði.

3. Það vantar eiginlega alveg að tala um hvaða verkfæri eru fyrir hendi til að ná þessum markmiðum. Vantar meiri umfjöllun á lífrænum áburði og þeim efnum sem væri hægt að nýta þar til uppgræðslu, svartvatn, molta, fráveita frá fiskeldi á landi, slá ónýtt tún og dreifa moðinu. Hvaða fræ á að nota annað en birkifræ o.s.frv.

Að lokum fagnar Skútustaðahreppur þessari vinnu og mörgu sem þarna kemur fram en of mikil áhersla er á hin faglega þátt á kostnað framkvæmda. Skútustaðahreppur fagnar verkefninu Grólind og telur það stærsta verkfærið til að vinna eftir en við vitum alveg hvað virkar. Það er búið að stunda landgræðslu á Íslandi frá 1907.
Skútustaðahreppur áskilur sér rétt til að koma með fleiri athugasemdir á síðari stigum

Daði Lange Umhverfisfulltrúi Skútustaðahrepps.

14.06.2021. Skógræktarfélag Íslands

Stjórn Skógræktarfélags Íslands hefur á stjórnarfundi þann 14. júní kynnt sér drög að Landgræðsluáætlun ásamt drögum að umhverfismati áætlunar.
Eftir vandlega skoðun, gerir félagið sérstaklega athugasemdir við eftirfarandi atriði.

Skýrslan er viðamikil og tekur á mörgum brennandi verkefnum Landgræðslunnar en í hnotskurn kemur fram á bls. 4. staða og ástand þurrlendis hér á landi. Því miður er það ekki lýsing sem hægt er annað en að lýsa sem hryggðarmynd og í raun skelfileg staða gróðurs og
jarðvegs.

Í þeirri stöðu mætti velta fyrir sér hvernig fjármunum almennings er varið og hvaða árangri slíkar fjárfestingar skila. Öll þau verkefni sem talin eru upp eru bæði stór og umfangsmikil og kalla á miklar fjárfestingar eigi þær að skila árangri á tilsettum tíma. Innri skoðun á þessum
þáttum virðast ekki vera reifaðar með nægilega skýrum hætti.

Í kaflanum Markmið 1.4: Takmarka rask vistkerfa af völdum ágengra framandi tegunda er tíunduð ógn sem steðjar af framandi ágengum tegundum. Mætti halda í þessu samhengi að íslensk gróðurfarssaga væri á heljarþröm hvað þessi áhrif varðar. Því er ekki til að dreifa enda teljumst við Íslendingar enn vera heimsmeistarar í skógar- og jarðvegseyðingu. Um marga áratugi og í raun frá upphafi landgræðslustarfs við upphaf síðustu aldar hafa menn reynt að
nýta sér þau tæki sem mögulega hafa staðið til boða við bæði uppgræðslu og skógrækt og hafa erlendar uppgræðslujurtir og trjátegundir verið þar á meðal. Það verður að teljast varhugaverð ályktun í þessu sambandi að líta á íslenska gróðurvistkerfið ósnortið og óumbreytanlegt.

Allmargir landsmenn þekkja þá hörmungarsögu sem við stöndum enn frammi fyrir og þrátt fyrir rúmlega 100 ára sögu landgræðslu og skógræktar hefur lítið miðað. Í sögulegu samhengi er það einnig áhugavert þegar haft er í huga að Landgræðslan ber í raun þyngsta ábyrgð á því
hér á landi hve lúpína hefur náð mikilli fótfestu sem landbótajurt, að nú skuli stofnunin bregðast hastarlega við erlendum tegundum sem bæði hafa gert gagn og komið í veg fyrir jarðvegseyðingu og bundið kolefni í jarðvegi. Það er með hreinum ólíkindum að stofnunin taki upp á því í þessu plaggi og nýlegum umsögnum að bannfæra og leggja m.a. til í nýlegri umsögn um skógræktaráætlun Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Kópavogs á
Lakheiði og Lækjarbotnum að stafafura verði ekki notuð. Rétt er að taka fram að stafafura er sú trjátegund sem skógræktarfélög nota hvað mest við ræktunarstörf á rýru og gróðursnauðu landi og kemur engin trjátegund þar betur að notum.

Þá er er rétt að taka fram að stafafuran er trjátegund sem skógræktarfélög byggja fjárhagslega afkomu sína á umfram annað en 20 – 30 skógræktarfélög víðsvegar um land selja furuna sem jólatré á hverju ári. Rétt er að taka fram að félögin eru á meðal stærstu framleiðenda landsins í
innlendum jólatrjám á Íslandi. Það veldur því skógræktarfélögunum þungum áhyggjum að ríkisstofnunin skuli vega með jafn harðskeytum hætti að tilverugrundvelli félaganna í þessu plaggi.

Taka ber fram að lítill hópur fólks í örfáum ríkjum, aðallega í einu (Noregi) þar sem skógur þekur 37% landsins amast við ræktun stafafuru en á sama tíma er hægt að telja margfalt fleiri lönd sem nota erlendar tegundir til hagsbóta fyrir viðkomandi land. Nægir í því sambandi að líta ekki lengra en til nágranna okkar í Írlandi, Skotlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Síðan má nefna góðan árangur Kína á undanförnum árum við nýskógrækt. Þar hefur tekist að auka
þekju skóga úr 16% árið 1990 í 23% nú og er stefnt að frekari aukningu á næstu árum, eftir óstjórnlega skógareyðingu og jarðvegseyðingu undangenginna áratuga og alda. Landgræðslan mætti gjarnan kynna sér aðferðir og markmiðssetningu stjórnvalda þar eystra, enda byggist
góður árangur Kínverja við endurheimt landgæða að miklu leyti á nýskógrækt.

Með góðum kveðjum
Jónatan Garðarsson, Brynjólfur Jónsson,
formaður framkvæmdastjóri

15.06.2021. Skógræktin

Landgræðslustjóri og verkefnisstjórn um Landgræðsluáætlun

Efni: Umsögn Skógræktarinnar um drög að Landgræðsluáætlun sem nú er til umsagnar.

Í drögum að Landgræðsluáætlun sem nú liggja fyrir eru mörg góð atriði sem Skógræktin tekur heilshugar undir. Ekki ætla ég að tíunda það allt en einbeita mér frekar að því sem betur mætti fara.

1. Almennt: Fjallað er um viðfangsefnið nánast eingöngu út frá vistkerfum og endurtekið þema að vernda og endurheimta vistkerfi, hnignuð vistkerfi o.s.frv. Hins vegar hefur landgræðsla hingað til fengist við stöðvun sandfoks og annars jarðvegsrofs og til þess græt upp land, þ.e.a.s. fengist við gróður. Ekki er yfirleitt unnið með annað en gróður, t.d. eru fuglar, smádýr og sveppir yfirleitt látnir sjá um það sjálfir að komast á staðinn. Vissulega er fallegt að tala um vistkerfi en í raun er verið að vinna með gróður og spurning hvort ekki væri skýrara að tala áfram um gróðurvernd og uppgræðslu eins og góð hefð er fyrir.

2. Líka almennt: Nálgunin einblínir um of á vernd þess sem fyrir er og endurheimt á vistkerfum (gróðri) sem áður var. Samt er viðurkennt oftar en einu sinni að breytinga sé þörf á rofnu landi og hnignuðu mólendi. Hægt er eð hugsa sér önnur mjög gagnleg markmið, svo sem að endurhæfa rofið land og hnignað mólendi sérstaklega í þágu beitar, t.d. með því að auka hlut grasa í slíku landi (sem er nú gert en engin áhersla er lögð á í drögunum). Á landi sem nýtt er til beitar væri slíkt bæði gagnlegra og gerlegra en að endurheimta víðifláka eða birkikjarr. Að sama skapi getur verið gagnlegra að nýta framræst land til beitar, og hlífa þá öðru landi, frekar en að endurheimta votlendi. Endurheimt virtkerfa er gott og gilt markmið en það á ekki að vera eina markmið landgræðslustarfsins.

3. Almennt enn: Eingöngu virðist vera horft til fortíðar í umfjöllun um endurheimt. Fjallað er um loftslagsbreytingar og hlutverk endurheimtar vistkerfa í þeim efnum, sem er gott, en ekki er fjallað um aðlögun að þeim breytingum sem munu eiga sér stað ef spár rætast um 2-3° hlýnun á þessari öld og sennilega enn meiri hlýnun á þeirri næstu. Líklegt er að miklar breytingar verði á gróðri og að einblína um of á að endurheimta og vernda eitthvað sem var aðlagað litlu ísöld er ekki endilega vænlegt til árangurs. Meiri sveigjanleiki þarf að vera í áætluninni, t.d. hvað varðar val á tegundum og aðferðum.

4. Á bls. 6 er þetta: Á árunum 1907-2018 var heildarflatarmál uppgræddra svæða um 3070 km2 lands, þar af eru uppgræðslur frá 1990 um 1500 km2 (NIR 2020). Verið er að uppfæra þessar tölur til loka árs 2020, en sé miðað við aðgerðir frá 1990 má ætla að heildarflatarmál uppgræddra svæða sé nú a.m.k. 3100 km2.

Skýra mætti betur hvað átt sé við með uppgræddu landi. Dugar að hafa borið einu sinni á eða er einhver merkjanlegur árangur sem miðað er við, og þá hver?
5. Á bls. 6 er þetta: Vistkerfi í minna röskuðu ástandi, svo sem hnignað mólendi, hafa ekki verið í forgangi við beinar endurheimtaraðgerðir, þó að styrking slíkra vistkerfa geti verið afar skilvirk leið til að styrkja vistkerfaþjónustu, efla líffræðilega fjölbreytni, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka upptöku kolefnis í jarðvegi og gróðri.

Hér mætti fjalla nánar um þetta atriði, t.d. að nefna að fara mætti tvær leiðir í að vinna með minna raskað land (hnignað mólendi), svo sem að efla hlut grasa í slíku landi sem nýtt er til beitar en hlut skógar í slíku landi sem ekki er nýtt til beitar.

6. Á bls. 8 er þetta: Mikilvægt er að afla gagna um gerð og dýpt jarðvegs votlendis, þær lífverur sem nýta votlendi sem búsvæði og hvaða hlutverk svæðin hafa í vatnsmiðlun.

Rétt er það, en hér mætti bæta við að afla þurfi sömu gagna um það land sem til stendur að bleyta upp. Framræst land er mikilvægt búsvæði margra lífvera, sem ekki þrífast í mýrum. Við endurheimt votlendis hverfa þær.

7. Á bls. 9 er þetta: Stórauka þarf bindingu kolefnis í jarðvegi með endurheimt vistkerfa, vernda og efla líffræðilega fjölbreytni og endurheimta fyrri viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa landsins.

Að endurheimta fyrri viðnámsþrótt dugar ekki. Fyrri viðnámsþróttur var ekki nægur til að þola álagið. Þess vegna hnignuðu vistkerfin. Legg til að „efla“ komi í stað „endurheimta fyrri“. Þetta er dæmi um að horfa um of á fortíðina. Við eigum að læra af henni, ekki endurtaka hana.

8. Á bls. 10 er þessi framtíðatsýn: Vernd vistkerfa er grunnstef í allri stefnumótun og ákvörðunum tengdri nýtingu þeirra.

Þetta ætti við sem grunnstef ef vistkerfi væru hér almennt lítt snortin eða í góðu ástandi. En í áætluninni kemur fram að svo sé ekki á mjög stórum hluta landsins. Vernd getur því ekki verið eðlilegt grunnstef. Aðgerðir til að bæta ástand vistkerfa (gróðurs) hljóta að vera grunnstef.

9. Á bls. 10 er þetta: Jarðvegs- og gróðureyðing og umbreyting á náttúrulegum kerfum, svo sem með framræslu votlendis, ræktun og mannvirkjagerð, skerða virkni vistkerfa og auka verulega við magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti.

Af hverju er beit ekki nefnd hér? Atriðin sem nefnd eru ná samanlagt aðeins til lítils hluta (5-10%) landsins á meðan sauðfjárbeit nær til 60% og stór hluti þess er ekki beitarhæfur. Legg til að beit verði bætt við upptalninguna.

 

10. Á bls. 12 er þetta. Meginmarkmið 1. Vistkerfavernd er ráðandi nálgun í allri stefnumótun og ákvörðunum tengdri stjórnun og nýtingu vistkerfa.

Bendi aftur á að vistkerfavernd getur ekki verið ráðandi nálgun á landi þar sem mest þörfin er áð að endurheimta og efla vistkerfi, einungis þar sem vistkerfi eru í góðu standi, þ.e. ekki á rofnu landi eða mólendi þar sem gróður er mótaður af aldalangri beit, sem er obbinn af landinu. Endurheimt hefur í för með sér breytingar, ekki vernd.

11. Á bls. 12 er þetta: Gætt er að kynja- og jafnréttissjónarmiðum við ákvarðanatöku.

Skil ekki þessa tengingu við meginmarkmið 1. Sjálfsagt er að gæta að þessum sjónarmiðum en af hverju sérstaklega hér? Á e.t.v. frekar heima í umfjöllun undir markmiði 3.2.

12. Á bls. 12 er þetta: Stjórnarhættir, ákvarðanir og framkvæmdir tengdar vernd og endurheimt vistkerfa eru skýr og byggja á vistfræðilegum nálgunum, þátttökunálgunum og bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni.

Legg til að orðið „vísindalegri“ verði bætt í setninguna á undan „þekkingu“. Þekking er margs konar, en í þessum efnum hlýtur að vera kappsmál að byggja á vísindalegri þekkingu, en ekki t.d. trúarlegri þekkingu eða hyggjuviti.

13. Á bls. 21 er þetta: Notkun framandi tegunda sem geta orðið ágengar er ekki samrýmanleg aðgerðum til að endurheimta vistkerfi.

Legg til að þessi setning falli niður. Þetta er hreinlega ekki rétt. Til eru mörg dæmi þess að framandi tegundir hafi verið notaðar við endurheimt vistkerfa. Nefna má þátt lúpínu í endurheimt birkiskóga víða um land sem dæmi. Einnig má nefna sáningu innfluttra grastegunda, sem leitt hefur til framvindu vistkerfa sem saman standa eingöngu af innlendum tegundum.

14. Á bls. 21 er þetta: Á Íslandi eru dæmi um að bæði ágengar framandi lífverur hafi numið land og valdið víðtæku raski á þeim vistkerfum sem fyrir eru. Alaskalúpína var flutt til landsins um miðja síðustu öld til að nota í landgræðslu. Landgræðslan hætti að nota hana 2018 vegna þess hve ágeng hún er. Nú er svo komið að það þarf að hamla útbreiðslu hennar og endurheimta vistkerfi sem hún hefur raskað.

Legg til að þetta verði fellt niður. Í umfjölluninni um alaskalúpínu er samanburðar ekki gætt og hér er tekið undir þann jafnvægisskort. Ef gagnið af notkun lúpínu, í formi jarðvegsverndar, stöðvunar sandfoks (t.d. á Mýrdalssandi), skilvirkni við uppgræðslu (sem er veruleg samanborið við aðrar aðferðir) og myndun öflugra vistkerfa er borið saman við ógagnið að hún dreifist inn á mólendi (sem er beitarmótaður gróður), þá er í raun enginn vafi á því að gagnið hefur vinninginn, og það svo um muni. Sagt er að lúpína sé ágeng, sem skv. íslenskum lögum þýðir að hún þarf að hafa valdið eða vera líkleg til að valda rýrnun á líffræðilegri fjölbreytni. Ekki hefur verið sýnt fram á það. Það hefur einungis verið ákveðið að hún sé ágeng með því að segja það nógu oft. Landgræðslan á að taka lúpínuna í sátt og nota hana skynsamlega, frekar en að hafna henni.

15. Á bls 21 er þetta: Innfluttar trjátegundir geta einnig valdið raski á vistkerfum sem og framandi tegundir skordýra og örvera sem sýkja tré og annan gróður.

Legg til að þessi setning verði felld niður. Öll skógrækt á skóglausu landi breytir vistkerfum óháð því hvort trjátegundin sé innlend eða útlend. Landgræðsla með sáningu grass gerir það líka óháð uppruna grassins. Hægt er að kalla þær breytingar „rask“. Það er líka hægt að kalla þær „endurheimt“. Að kalla vistkerfisbreytingar rask þegar um útlendar tegundir er að ræða en endurheimt þegar um innlendar tegundir er að ræða er hvorki rökrétt né gagnlegt.

16. Á bls. 23 er þetta: Ósjálfbær landnýting er ein af meginorsökum eyðingar og hnignunar vistkerfa hér á landi og hindrar náttúrulega framvindu þeirra. Ósjálfbær landnýting hefur neikvæð áhrif á kolefnisbúskap landsins, líffræðilega fjölbreytni, virkni vistkerfa og framtíðarmöguleika samfélagsins.

Hér væri gagnlegt að greina frá því hver þessi ósjálfbæra landnýting sé helst. Þrennt er nefnt: ferðamenn og innviðauppbygging tengd þeim, framræsla og beit. Af þeim eru fyrri þvö atriðin smávægileg samanborið við það þriðja. Rétt væri að það komi fram hver sú ósjálfbæra landnýting sé sem einkum þarf að taka á.

17. Á bls. 32 er þetta: Almenn þekking og víðtækt samstarf um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Hér mætti nefna hvers konar þekkingu átt sé við þ.e. vísindalega.

18. Á bls. 33 er þetta: Hnignuð vistkerfi geyma ekki kolefni né miðla vatni í sama magni og heil vistkerfi gera, né framleiða lífmassa eða láta okkur í té neinar aðrar vistkerfaþjónustur í sama mæli og heil vistkerfi gera.

Þetta er mjög góður punktur!! Hann mætti vera meira áberandi og stefnan mætti taka meira mið af þessari staðreynd. Það þarf að endurheimta, efla og breyta á virkan hátt til að laga þetta ástand. Svo horfum við fram á gjörbreytt loftslag, sem þýðir að þær aðgerðir þurfa að vera sveigjanlegar og miða við fleira en endurheimt þess sem fyrir var og þoldi ekki álagið.

19. Á bls. 33 er þetta: Einnig virðist skorta upp á almennan skilning innan samfélagsins á að yfir helmingur vistkerfa landsins er í röskuðu ástandi af völdum ósjálfbærrar landnýtingar fyrri alda.

Líka mjög góður punktur. Þessi staðreynd mætti líka vera meira áberandi og hafa meiri áhrif á útkomuna.

Virðingarfyllst
f.h. Skógræktarinnar

Þröstur Eysteinsson
Skógræktarstjóri

15.06.2021. Bláskógabyggð

Umsögn Bláskógabyggðar:
Efni: Umsögn um drög að landgræðsluáætlun 2021-2031

Vísað er til tölvupósts frá Landgræðslunni, dags. 6. maí sl., þar sem óskað er eftir umsögnum Bláskógabyggðar um drög að landgræðsluáætlun 2021- 2031 og drög að umhverfismati áætlunarinnar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur þunga áherslu á að unnið verið í nánu samráð við sveitarfélagið og íbúa þess þegar kemur að landgræðsluáætlunum/verkefnum innan sveitarfélagsmarka Bláskógabyggðar. Um áratugaskeið hefur verið unnið að landbótum og skógrækt jafnt á láglendi sem hálendi í sveitarfélaginu. Starfið hefur að miklu leyti verið unnið í sjálfboðavinnu og hefur náðst gríðarlega góður árangur á stórum svæðum. Samstarf heimamanna og Landgræðslunar við landbótastörf á sér langa sögu og hefur gefist vel.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að mikil tækifæri séu í frekari landbótastörfum. Eigi að nást sem bestur árangur við landgræðslustörf í framtíðinni þarf að ríkja virðing fyrir því starfi sem heimamenn hafa sinnt í áratugi og viðurkenning á þeim árangri sem náðst hefur.

Hvað aðra þætti áætlunarinnar og drög að umhverfismati varðar þá vísar sveitarstjórn til umsagna Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Bændasamtaka Íslands og tekur undir þær umsagnir.

24.06.2021. Þingeyjarsveit

Fyrir hönd sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar er eftirfarandi umsögn send inn:

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að breyta styrkjakerfi tengt landnýtingu þannig að þeir hvetji enn frekar til sjálfbærrar nýtingar og gefi landnotendum færi að því að aðlaga landnot sín að breyttum áherslum. Með kort af ástandi vistkerfa og möguleikum á vernd, endurheimt og sjálfbærri nýtingu þeirra í aðalskipulagi gefast tækifæri til aukinnar vistkerfaþjónustu og verðmætasköpunar innan sveitarfélaganna.

28.06.2021. Umhverfisstofnun

Verkefnisstjórn

Í samræmi við lög um landgræðslu nr. 155/2018 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn sem hafði yfirumsjón með gerð landgræðsluáætlunarinnar. Í henni sitja Árni Bragason, landgræðslustjóri (formaður verkefnisstjórnarinnar), Margrét Harpa Guðsteinsdóttir sveitastjórnarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ása L. Aradóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Tryggvi Felixson auðlindahagfræðingur skipuð af ráðherra án tilnefningar. Í mars árið 2020 urðu þær breytingar á verkefnisstjórninni að Oddný Steina Valsdóttir tók sæti Guðrúnar Tryggvadóttur sem fulltrúi frá Bændasamtökum Íslands. Starfsfólk Landgræðslunnar veitti verkefnisstjórninni aðstoð og sérfræðiráðgjöf við gerð áætlunarinnar. Þau Þórunn Pétursdóttir sviðsstjóri og Guðmundur Halldórsson sérfræðingur störfuðu með verkefnisstjórn og annað starfsfólk Landgræðslunnar veitti verkefnisstjórninni einnig aðstoð og sérfræðiráðgjöf við gerð áætlunarinnar.